Gagnrýnin hugsun

Að tileinka sér opið hugarfar er nátengt því sem kallað er gagnrýnin hugsun (e. critical thinking).

Samkvæmt íslenskri orðabók merkir lýsingarorðið „gagnrýninn“ annaðhvort „skarpur í gagnrýni sinni, athugull á allar hliðar máls“ eða „aðfinnslusamur“. Sú merking sem er mest viðeigandi í orðasambandinu „gagnrýnin hugsun“ er að vera „athugull á allar hliðar máls“.

„Gagnrýnin hugsun er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Með öðrum orðum: gagnrýnin hugsun leitar að nýjum og betri rökum fyrir skoðunum sínum og hugmyndum og er þar af leiðandi sífellt að endurskoða þær.“ Erindi flutt í Ríkisútvarpinu 13. og 20. október 1985 eftir Pál Skúlason

Það kallast gagnrýnin hugsun að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni felst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Gagnrýnin hugsun hjálpar okkur að setja kerfisbundið fram vandamál sem við gerum okkur einungis lauslega grein fyrir. Með því að beita gagnrýninni hugsun áttum við okkur á hvaða upplýsingar skipta máli fyrir lausn vandamálsins. Hugsun okkar verður virk þegar við túlkum upplýsingarnar með opnum huga og metum afleiðingar mismunandi túlkunarleiða. Gagnrýnin hugsun er bæði athöfn og leiðarvísir fyrir skoðanir okkar og gerðir.

Temdu þér að nálgast mál ávallt bæði með opnum huga og gagnrýnni hugsun. Leyfðu þér að vera spurull, ekki of íhaldssamur í skoðunum, að sækjast eftir réttum upplýsingum og umfram allt að bera virðingu fyrir skoðunum annarra.

Hvers vegna er gagnrýnin hugsun mikilvæg?

Það má jafnvel segja að gagnrýnin hugsun sé forsenda framfara mankyns á jörðinni. Það er ansi djúpt í árina tekið en er samt ekki sannleikskorn í því?

Páll Skúlason, fyrrverandi háskólarektor og prófessor í heimsspeki orðar þetta vel. „Framfarirnar eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga, reyni að finna á þeim veika bletti. Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal: að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri; að reynt sé að finna galla á verki – hvert svo sem það er – til að unnt sé að gera betur.“