Opinn hugur

Ásgeir segir stundum, í hálfgerðu gríni, að eina krafan fyrir þátttöku á námskeiðum hjá Takmarkalausu Lífi sé að viðkomandi komi á námskeiðið með opinn huga gagnvart efninu og skoðunum annara. Flestu gríni fylgir þó einhver alvara. Til þess að opin skoðanaskipti verði hjá hóp af fólki þá skiptir máli að sem flestir séu með opinn huga og dæmi ekki ólíkar skoðanir annarra á námskeiðinu. Því byrja öll námskeið á því að spyrja fólk hvað það sé, í þeirra huga, að vera með opinn huga? Flestir hafa ámóta sýn á þetta og ekki mikið um hörð skoðanaskipti í þessum vangaveltum. Allflestir eru sammála því að það sé mikilvægt að vera með opinn huga og tileinka sér það eins og framast er unnt. Það hefur heldur enginn komið á námskeið til mín sem segist ekki vera með opin huga, öll teljum við okkur vera með opinn huga. Spurningin er bara hvernig annað fólk túlkar okkar opna huga.

Hvað nefnir fólk þegar rætt er um opinn huga?

  • Að gefa öllu sem maður heyrir tækifæri
  • Afgreiða ekki hluti sem eru þvert á skoðun okkar án þess að gefa þeim tækifæri
  • Forðast fordóma. Það er erfitt að vera með opinn huga ef þú ert fullur af fordómum
  • Vera jákvæður. Það er erfitt að vera með opinn huga ef maður er neikvæður
  • Að vera með opinn huga þýðir ekki að maður eigi að trúa öllu sem maður heyrir, síður en svo, en að gefa því tækifæri

 

En hvað þýðir það að tileinka sér opinn huga? Þú þarft t.d. að trúa því að „allir sem þú hittir muni getað víkkað sjóndeildarhring þinn" og að „allir sem þú munt hitta munu vita eitthvað sem þú veist ekki“. Emerson sagði t.d. “Hver einasti maður sem ég hitti er mér meiri á einhvern hátt. Á þann hátt læri ég eitthvað af honum.” Orð Emerson eru sérlega vel sögð, því ef manni finnst maður yfir annað fólk hafinn, sama hver sá einstaklingur er og hvað hann gerir, þá verður erfitt að vera með opinn huga gagnvart honum og þar af leiðandi enn minni líkur að maður geti lært eitthvað af honum.

Við skulum rifja upp skemmtilega Zen sögu sem er kölluð „tebollinn“ (A Cup of Tea). Eitt sinn fór virtur prófessor á fund Zen meistara nokkurs og spurði hann hver væri meininginn með Zen? Zen meistarinn hellti tei rólega í bolla. Bollinn fylltist en áfram hélt Zen meistarinn að hella. Nú gat prófessorinn ekki hamið sig lengur og sagði við Zen meistarann, “Hvers vegna heldur þú áfram að hella þegar bollinn er orðinn fullur?“ Þá sagði Zen meistarinn, „Það er vegna þess að mig langar að benda þér á að þú ert að reyna að skilja hvað Zen er og hvað það gengur út á meðan hugur þinn er fullur, líkt og tebollinn. Þú verður að byrja á að tæma hugann af öllum fordómum áður en þú getur reynt að skilja Zen.“