Rýndu og veldu

Það hefur alltaf verið mikilvægt að setja spurningamerki við allt sem við heyrum og sjáum og sérstaklega það sem kemur frá fréttamiðlum. Við lifum ekki bara á friðsælustu tímum jarðar, heldur líka á best upplýstu tímum í sögu jarðarinnar. Upplýsingar um glæpi, sjúkdóma og náttúruhamfarir hefur aldrei verið jafn auðvelt að nálgast og í dag. Snögg leit á netinu getur skilað okkur meiri upplýsingum um hryðjuverkaárás en hvaða dagblað sem er fyrir 100 árum. Flestir vita að það sem er í fréttum er ekki allt satt og rétt og að það eru að minnsta kosti alltaf tvær hliðar á öllum málum. Við vitum líka að fréttir fjalla nánast bara um neikvæðu hliðina, þá hlið sem er blóðugri. Hvernig vitum við hvort fréttir gefa raunsanna mynd af stöðu mála almennt? Við ættum kannski oftar að spyrja okkur, eftir lestur slíkra fyrirsagna og frétta, hvað „gerðist ekki“. Ef þetta eru málefni sem snerta þig og þitt líf þá er hægt að velta upp fleiri hliðum mála. Nýttu þér leitarvélar eins og Google“með það að markmiði að skoða fleiri hliðar málsins.

Þá er eðlilegt að við spyrjum okkur hvort nauðsynlegt sé að „googla“ allt sem maður heyrir til að staðreyna það? Svarið er já og nei. Tökum dæmi. Þú heyrir eða lest að kaffi sé bráðhollur drykkur en þú hefur alltaf haft þá skoðun að kaffi sé óhollt. Þó þér finnist það ákaflega gott þá ertu alltaf að reyna að hætta að drekka kaffi og ert með samviskubit yfir að geta það ekki. Í þessu dæmi þarf að „googla“ og eyða tíma í komst eins nálægt sannleikanum og hægt er. Ef þér þætti hins vegar kaffi vont, hefðir aldrei drukkið það og langaði ekki til þess þá þarf jafnvel ekkert að sannreyna þessar upplýsingar með þessum hætti. Þér finnst það hvort sem er vont.

En núna gæti sá sem trúði því að kaffi væri óhollt en þætti það ákaflega gott sagt, „En ég er störfum hlaðinn; ég hef engan tíma fyrir þá miklu rannsóknarvinnu sem til þarf svo ég verði dómbær um margvísleg vandamál eða jafnvel færan um að skilja allar röksemdir fyrir því að kaffi sé hollt.“ Þá gætum við sagt við hann „þú ættir þá ekki heldur að hafa neinn tíma til að trúa…“ Með öðrum orðum: við skulum vera hlutlaus um þau efni sem við erum ekki dómbær um, ekki taka afstöðu eða mynda okkur skoðun fyrr en við höfum kynnt okkur málin. Við ættum að vera hlutlaus í þeim efnum þar sem við eigum ekki enn kost á neinum „öruggum“ niðurstöðum.

Jafnvel má segja að gagnrýnin hugsun eigi ekki alltaf við, að það sé alltaf undantekning á reglunni. Um þetta eru menn ekki sammála og það er ljóst að í þessu, líkt og flestu öðru, eru a.m.k. tvær hliðar á peningnum góða. Hvenær á hugsanlega ekki við að beita gagnrýnum huga? Í hvaða tilfellum getur það átt við? Þegar málin snerta t.d. trúarbrögð, siðferði og stjórnmál þá hljóta tilfinningar manna, langanir eða hagsmunir að vera undirstöður skoðana þeirra, breytni og ákvarðana – og er það endilega rangt?

Sem dæmi, þá er erfitt að beita gagnrýnni hugsun og ákveða út frá því hvaða guð á að trú á, eða hvort þú átt að gerast trúleysingi. Sumu bara trúum við vegna þess að okkur var sagt það. Stundum getur það verið ágætt, allavegana ef það er orðin almenn sátt um viðkomandi mál í þjóðfélaginu og í vísindasamfélaginu. Þarna gæti maður nefnt sem dæmi að jörðin sé ekki flöt og að sólin sé miðpunktur sólkerfisins sem jörðin er í. Þó að yfirhöfuð sé ekki rétt að „trúa“ bara einhverju vegna þess að „einhver sagði það“ þá liggja rök manna fyrir skoðunum, hugmyndum og kenningum ekki alltaf á lausu og því er auðvelt að benda á að menn trúi einhverju á algerlega ófullnægjandi forsendum. Þeir geta t.d. haldið að eitthvað sé satt bara af því að „það stóð í blaðinu“ eða vegna þess að „pabbi sagði það“ eða „kennarinn sagði það“.

Nú er ég ekki að halda því fram að það sé ævinlega ástæða til þess að efast um allt sem stendur í blöðunum eða það sem foreldrar eða kennarar segja, heldur einungis að benda á að það er yfirleitt veik forsenda fyrir sannfæringu að einhver annar hafi sagt að eitthvað sé rétt. Við þurfum vissulega oft að reiða okkur á skoðun annarra – foreldra, kennara, sérfræðinga o.s.frv. en við megum ekki treysta þeim í blindni. Ef við erum komin til vits og ára eigum við að biðja um rök.

Það sem okkur vantar núna, meira en nokkru sinni fyrr er fólk sem setur spurningarmerki við allt sem það les, allar fréttir og umfram allt það sem því er sagt að gera. Gagnrýnin hugsun er það sem við eigum að kenna og tileinka okkur og taka ekki neinu sem gefnu og setja spurningarmerki við allt sem okkur er sagt.

Þegar þú hittir einhvern sem hefur fundið allan sannleikann um ákveðið málefni þá er ágætt að beina tali sínu að einhverju öðru eða hætta bara að hlusta. Þegar fólk kemst að þeirri niðurstöðu að það viti „allt“ um viðkomandi málefni, þá er það komið á endastöð, það er ekki tilbúið að opna huga sinn fyrir nýjum möguleikum eða nýrri sýn á hlutina.

Gefum hans heilagleiki Dalai XIV Lama orðið: „Ég er búddisti og þjálfa mig í samræmi við búddískar kenningar eða dharma Búdda. Þótt ég tali út frá eigin reynslu er mér síst í mun að þvinga sannfæringu minni upp á aðra. Ég held því ekki fram að mínar aðferðir séu öllum öðrum betri. Þar er það ykkar að ákveða. Ef þið finnið eitthvað í þessu kveri sem þið teljið geta komið ykkur að gagni er um að gera að prófa sig áfram með það. Ef það gagnast ekki er hægur vandi að hætta við.“ Þetta er texti úr inngangi bókarinnar Bókin um viskuna og kærleikann eftir Dalai Lama. Þessi orð endurspegla visku og eiga við flest allt sem við látum frá okkur fara til annarra í formi kennslubóka, námskeiða eða talaðs máls.

Við Íslendingar búum í þekkingarþjóðfélagi og höfum alla tíð verið fróðleiksfús. Okkur þykir gaman að læra og fræðast um nýja hluti. Stundum finnst fólki sem það gæti gert hitt og þetta ef það hefði meiri þekkingu á viðkomandi máli. Standi meintur þekkingarskortur í vegi fyrir einhverjum er ekki úr vegi að rifja upp orð Mark Twain, þegar hann segir svo skemmtilega „Við eigum ekki að óttast það sem við vitum ekki, heldur það sem við teljum okkur vita fyrir víst en er rangt.

1 apríl: „Eini dagur ársins sem fólk horfir gagnrýnum augum á upplýsingar sem það finnur á netinu áður en það samþykkir þær sem sannleika.“ höfundur óþekktur