Viljum við valmöguleika?

Samkvæmt könnunum vill meirihluti fólks hafa meiri stjórn á smáatriðunum í lífi sínu en meirihluti fólks vill líka einfalda líf sitt. Þetta mætti kalla mótsögn okkar tíma.

Ef fólk er, sem dæmi, spurt hvort það vildi, ef það fengi krabbamein, geta valið um hvernig krabbameinsmeðferð það fer í þá svara flestir þeirri spurningu játandi. Raunin er síðan önnur ef fólk fær krabbamein. Þá vill það bara láta velja fyrir sig. Það er auðveldara og því fylgir minni ábyrgð að vera sagt hvað maður á að gera í stað þess að vera endalaust að velta fyrir sér kostum og göllum mismunandi meðferða.

Hvernig tengist þetta námskeiðshaldi? Oft sér maður að fólk vill ekkert endilega skoða marga möguleika. Það vill bara láta segja sér hvernig hlutirnir eru og það fer jafnvel í taugarnar á því að fá svör eins og „það veltur á þessu og hinu“ og „en eða ef“ og fleira í þeim dúr. Það spyr jafnvel hvor þetta eða hitt sé hollt eða ekki og vill bara svart eða hvítt svar við þessu.

Ef við viljum láta segja okkur hvernig hlutirnir eru án þess að vera tilbúin að skoða alla eða aðra möguleika, þá erum við að nálgast ákveðinn heilaþvott sem stríðir gegn öllum andlegum þroska og framþróunar þekkingar.

Auðvitað má samt sem áður skilja hinn takmarkaða áhuga á vangaveltum. í daglegu lífi höfum við sjaldnast áhuga á spurningum, en þeim mun meira á svörum við þeim. Við þurfum sífellt að fá að vita hitt og þetta og það skiptir okkur oft litlu hvernig við fáum upplýsingarnar, aðalatriðið er að við fáum þær. Með sama hætti höfum við oft áhuga á skoðunum fólks, en lítinn sem engan áhuga á forsendum skoðana þeirra, hvers vegna fólk hefur þessar skoðanir eða trúir því sem það trúir.