UPPHAFIÐ

Ásgeir Jónsson stofnaði fyrirtækið Takmarkalaust Líf ehf. á vormánuðum árið 2011. Fyrir þann tíma hafði hann starfað hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Það hafði verið draumur Ásgeirs í þó nokkurn tíma að stofna eigið fyrirtæki sem hefði meðal annars að markmiði sínu að auka lífsgæði fólks með því að kynna það fyrir jákvæðri sýn á lífið og tilveruna og sýna því framá hvað það eitt að breyta viðhorfi okkar getur breytt líðan okkar.

Í störfum sínum hefur Ásgeir öðlast mikla stjórnunarreynslu og nýtir hann hana í þeim námskeiðum sínum sem lúta að stjórnun fólks, tíma- og fundarstjórnun svo eitthvað sé nefnt.

Menntun:

Eftir grunnskóla lá leið Ásgeirs í Fjölbrautarskólann á Akranesi en á þeim tíma átti það ekki við hann að stunda nám svo hann hóf almenna verkamannavinnu og því næst á sjóinn. Í framhaldi af því fór Ásgeir í Stýrimannaskólann og lauk þaðan öðru stigi, sem var tveggja ára nám sem veitti full skipstjórnarréttindi á öll fiskiskip. Næst lá leiðin í frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands og í framhaldi af því útskrifaðist hann sem iðnrekstrarfræðingur af rekstrarsviði og með B.Sc. gráðu í vörustjórnun (logistics).

Ásgeir lauk síðar MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík samhliða vinnu sinni hjá Ölgerðinni og þá með áherslu á mannauðsstjórnun. Ásgeir er með NLP Practitioner gráðu frá BrUen og er alþjóðlega vottaður markþjálfi (Coach) frá Háskólanum í Reykjavík (CEG Core Essentials Graduate)

Starfsreynsla:

Ásgeir starfaði hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni í 12 ár og sinnti þar ýmsum störfum. Má þar nefna starf yfirmanns dreifingar framkvæmdastjóra vörustjórnunar og framkvæmdastjóra tæknisviðs.

Ásgeir hefur:

Ásgeir hefur látið drauma mína rætast á mörgum sviðum og náð mörgum af sínum markmiðum. Hann hefur klifið fimm fjöll af þeim sjö sem teljast hæstu fjöll hverrar heimsálfu og var fyrstur Íslendinga til að klífa hið alræmda fjall „Carstensz Pyramid“ (Mt. Puncak Jaya) í Papúa Nýju-Gíneu, en það er hæsta fjall Eyjaálfu. Auk þessa hefur hann klifið Mt. Elbrus í Rússlandi, hæsta fjall Evrópu,, Mt. Kilimajaro, hæsta fjall Afríku, Aconcagua, hæsta fjall Suður-Ameríku, Denali, hæsta fjall Norður-Ameríku og Mt. Blanc, sem er hæsta fjall Vestur-Evrópu.

Ásgeir hefur klárað tvær IronMan keppnir, hlaupið Laugaveginn tvisvar sinnum og tekið þátt bæði í New York- og Reykjavíkurmaraþoni.

Hann hefur lokið meistaranámi í viðskiptum, skipstjórnarnámi, unnið á hjálparsíma Rauða krossins, stundað sjósund og yoga, prófað köfun, rafting, fallhlífarstökk og margt, margt fleira.