Sókrates og upphaf markþjálfunar

Enginn veit hvar eða hvenær markþjálfun átti sér stað í fyrsta sinn eða hver var fyrsti markþjálfinn í heiminum. Aðferðir markþjálfunar hafa verið til staðar um aldir þótt fyrirbærið sem slíkt hafi ekki fengið nafn fyrr en löngu síðar. Í þessu sambandi mætti líta til Grikklands hins forna og nefna Sókrates (Renton, 2009).

Sá frægi heimspekingur bjó yfir einstakri færni til þess að hjálpa öðrum að ná markmiðum sínum.

„Sókrates og lærisveinar hans lögðu áherslu á það, að þekkingarleit mannsins ætti að beinast að honum sjálfum, menn ættu að þekkja sjálfa sig, styrkleika og veikleika. Ef þessi þekking væri fyrir hendi, yrðu menn dyggðugir. ,,Þekking er dyggð.” Hann sagðist vera nokkurs konar andleg ljósmóðir, sem vildi hjálpa mönnum til þess að fæða með sér gott hugarfar. (Heimir Þorleifsson og Ólafur Hansson, 1973, bls. 180).“

Það var háttur Sókratesar að spyrja spurninga, ekki aðeins til að falast eftir persónulegum svörum, heldur til þess hvetja menn til skilnings á viðkomandi umræðuefni. Meginatriðið er að Sókrates spurði kröftugra spurninga rétt eins og markþjálfar dagsins í dag gera (Renton, 2009).

Afleiðingar þeirrar spurningaraðferðar birtast í aukinni sjálfsþekkingu og vitneskju fólks um styrkleika þess og veikleika. Langt er liðið frá dögum Sókratesar. Á þeim langa tíma hafa komið fram ýmsir aðilar sem notuðu aðferðafræði markþjálfunar án þess að vita af því, enda varð markþjálfun ekki til sem ákveðin grein fyrr en undir lok 20 aldar (skömmu fyrir 1990).

Þá fóru markþjálfar að vinna með starfsfólki skipulagsheilda. Þeir hjálpuðu því að bæta frammistöðu og jafnframt að eignast framtíðarsýn (Renton, 2009).
Markþjálfun var knúin áfram af þörfinni fyrir umhyggju fyrir fólki á tímum niðurskurðar og hagræðingar í rekstri fyrirtækja, samruna skipulagsheilda, yfirtaka og útvistunar verkefna (Hudson, 1999). Hugtakið markþjálfun kemur upphaflega úr íþróttamáli og þá í merkingunni að þjálfa íþróttamenn. Þegar þjálfara tekst að draga úr eða ýta frá innri hindrunum íþróttmanns verður frammistaðan betri og þá fær þjálfarinn tíma til að hugsa fyrst og síðast um þau tæknilegu atriði sem þarf að bæta. Það eru þessar innri hindranir sem reynast fólki erfiðar vegna þess að þær vinna gegn frekari þróun þess og framförum (Whitmore, 2007).